Skátafélagið Kópar stendur á tímamótum á árinu 2016 og fagnar 70 ára afmæli félagsins og 15 ára afmæli Útilífskóla Kópa þetta sumarið.

Skátastarf hefur í gegnum tíðina verið blómlegt í bænum okkar og skátar hafa sett svip sinn á Kópavog á ýmsan hátt. Við örkum í skrúðgöngu á 17. júní og á Sumardeginum fyrsta og sjáum um skemmtidagskránna fyrir Kópavogsbúa á þeim síðarnefnda. Lengi gaf skátafélagið út fermingarblað og seldi fermingarskeyti, en með tilkomu aukinnar tækni varð áhugi almennings fyrir skeytunum minni og var þeim því hætt fyrir nokkru síðan. Skátarnir stunda útilíf af kappi og það er líf og fjör við skátaheimili Kópa sem stendur á fallegum stað í Kópavogsdalnum.
Skátafélagið á tvo útilegu skála, Bæli á Hellisheiði og gamla skátaskálann okkar Þrist í Þverárdal undir Móskarðshnjúkum.

Til að enda frábært afmælisár bjóðum  við gestum  og gangandi upp á kakó og kósíheit í Þristi sunnudaginn 9. okt n.k. milli klukka 11:00 – 15:00. Allir velkomnir.

Á 70 ára afmælisárinu er skátafélagið Kópar síungt og við stefnum  ótrauð inn í nýtt starfsár hjá skátafélaginu.

Fundartímarnir eru komnir á netið og hægt að skoða þá bæði á heimasíðu félagsins www.kopar.is sem og á frístundagátt Kópavogsbæjar.

Við bjóðum börnum og unglingum, sem hafa áhuga á skátastarfinu velkomin, hvort sem um er að ræða gamla eða nýja skáta.

Sérstakur kynningardagur verður fimmtudaginn 1. september frá klukkan 17 – 19 í skátaheimilinu að Digranesvegi 79 og þangað eru allir velkomnir til að skoða aðstæður og kynnast starfinu.

Categories: Fréttir